Fiskvinnslan Íslandssaga var stofnuð í desember árið 1999 en fyrirtækið er byggt á grunni mikillar hefðar í úrvinnslu sjávarafurða. Á Suðureyri hefur verið rekin fiskvinnsla frá því snemma á síðustu öld og Íslandssaga sérhæfir sig í vinnslu á þorski, ýsu og steinbít. Fyrirtækið framleiðir bæði ferskar og frystar afurðir til útflutnings og framleiðslan fer jöfnum höndum á Ameríku og Evrópumarkað.
Fyrirtækið hefur verið leiðandi í útflutningi á ferskum fiski frá Vestfjörðum um árabil. Þær afurðir sem Íslandssaga vinnur hafa öðlast ákveðinn gæðastimpil hjá dreifingaraðilum og neytendum. Þessu má þakka góðu starfsfólki með mikla reynslu og þekkingu á sínu sviði. Starfsfólk og yfirmenn eru vel meðvitaðir um þá afurðakröfu sem gerð er til þeirra á ferskfiskframleiðslu.
Gjöfulustu mið landsins eru við Vestfirði og er því ekki langt að sækja hráefni til vinnslu. Fiskvinnslan er staðsett við höfnina og skapar það hagkvæmni á allan hátt. Nánast allt hráefni fiskvinnslunnar er nýtt til fullnustu og gerir það allan rekstur hagkvæman og ekkert fer til spillis. Hausaþurrkunarfyrirtækið Klofningur nýtir mikinn hluta afskurðar til vinnslu.
Fyrirtækið hefur stuðlað að vexti og viðgangi annarra fyrirtækja í nánasta umhverfi. Forsvarsmenn þess telja að ef þeim gengur vel þá gangi hinum fyrirtækjunum einnig vel og öfugt. Fyrirtækið fjárfestir í öðrum félögum sem tengjast Íslandssögu. Eignarhlutdeild í öðrum félögum heldur í bæjarbúa með því að ýta undir fjölbreytt vinnuumhverfi og skapar þar með möguleika fyrir fjölskyldur að starfa og vinna ólík störf innan sama bæjarfélags. Með þessu er fyrirtækið einnig að axla samfélagslega ábyrgð.
Íslandssaga er hlutafélag í eigu Útgerðarfélagsins Norðureyrar ehf sem er að mestu í eigu einstaklinga á Suðureyri sem bornir eru og barnfæddir þar, saga þeirra er samofinn sögu þorpsins og hafa þeir í gegnum tíðina axlað samfélagslega ábyrgð með rekstri fyrirtækja á Suðureyri.