Sjómannadagurinn á Suðureyri.

Sjómannadagurinn verður að vanda haldinn hátíðlegur á Suðureyri. Tveggja daga dagskrá hefst kl. 13 á laugardag með kappróðri á Lóninu en seinnipartinn verður opið hús hjá Fiskvinnslunni Íslandssögu auk þess sem sýning Johönnu Andersen „Story Teller“ verður opnuð. Um kvöldið verður boðið upp á fiskiveislusmakk í Félagsheimili Súgfirðinga og eru allir velkomnir á meðan birgðir endast og húsrúm leyfir. Þar mun Skólahljómsveit Mosfellsbæjar leika nokkur lög og tónlistarmaðurinn Elvar Másson spilar af fingrum fram. Að veislu lokinni verður slegið upp balli þar sem Smalarnir ásamt Elvari Mássyni leika fyrir dansi.

Á sjálfan sjómannadaginn verður farið í skrúðgöngu frá Bjarnaborg kl. 13.45. Skömmu seinna hefst sjóaramessa og heiðrun. Að sjálfsögðu verða hefðbundin hátíðahöld á sínum stað á höfninni og hefst sú dagskrá kl. 15. Dagskránni lýkur kl. 20 með siglingu á smábátum um Súgandafjörð.

Frétt  af www.bb.is

Valgerður komin aftur

Dragnótarbáturinn Valgerður BA 45 er aftur farin að leggja upp hjá Íslandssögu eftir hlé í vetur. Valgerður landaði rúmum 10 tonnum í gær úr tveimur sjóferðum. Það munar töluvert um ýsuna sem Óskar og áhöfn hans kemur með að landi, og þeir geta róið í meiri brælum en línubátarnir. Ýsan fer svo með flugi til Evrópu strax í fyrramálið, ef Eyjafjallajökull leyfir.

Bræla hjá línubátunum

Fallegur er hann nú ekki, en mjög góður.

 

Bræla er í dag hjá línubátum á Suðureyri og því allir í landi. Útlitið er ekki mjög gott fyrir næstu daga NA kaldaskítur eins og sjómenn kalla það. Steinbítur hefur verið uppistaðan í afla bátanna undanfarnar vikur og því vel við hæfi að birta mynd af einum slíkum.

Strandveiðar hafnar

2134. Dagrún ÍS 9.

Níu strandveiðibátar hófu veiðar í gær frá Suðureyri. Alls munu ellefu bátar róa á skak í sumar og þeir leggja allir nema einn upp hjá Íslandssögu. Þessi afli kemur sér vel í vinnslunni núna þar sem tregt hefur verið hjá línubátunum undanfarna daga.

Fiskvinnslan Íslandssaga

Velkominn á nýja heimasíðu fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri. Hér geturðu fundið upplýsingar um fyrirtækið okkar, starfsmenn þess og fleira.

Á forsíðunni ætlum við að hafa reglulegar fréttir af því sem tengist starfseminni og öðru okkur viðkomandi.

Kveðja

Íslandssaga