Dragnótarbáturinn Valgerður BA 45 er aftur farin að leggja upp hjá Íslandssögu eftir hlé í vetur. Valgerður landaði rúmum 10 tonnum í gær úr tveimur sjóferðum. Það munar töluvert um ýsuna sem Óskar og áhöfn hans kemur með að landi, og þeir geta róið í meiri brælum en línubátarnir. Ýsan fer svo með flugi til Evrópu strax í fyrramálið, ef Eyjafjallajökull leyfir.
Bræla hjá línubátunum
Bræla er í dag hjá línubátum á Suðureyri og því allir í landi. Útlitið er ekki mjög gott fyrir næstu daga NA kaldaskítur eins og sjómenn kalla það. Steinbítur hefur verið uppistaðan í afla bátanna undanfarnar vikur og því vel við hæfi að birta mynd af einum slíkum.
Strandveiðar hafnar
Níu strandveiðibátar hófu veiðar í gær frá Suðureyri. Alls munu ellefu bátar róa á skak í sumar og þeir leggja allir nema einn upp hjá Íslandssögu. Þessi afli kemur sér vel í vinnslunni núna þar sem tregt hefur verið hjá línubátunum undanfarna daga.